Fótbolti

Chelsea vann á heima­velli Evrópu­meistaranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Chelsea fagna hér sigurmarki Erin Cuthbert í Barcelona í dag.
Leikmenn Chelsea fagna hér sigurmarki Erin Cuthbert í Barcelona í dag. AP/Jose Breton

Chelsea er í fínum málum í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta eftir 1-0 útisigur á Barcelona í fyrri leik liðanna.

Þetta var fyrsta tap Barcelona liðsins í öllum keppnum á tímabilinu og fyrsta tap spænska liðsins í Meistaradeildinni síðan 7. desember 2022.

Enn fremur varð Chelsea fyrsta liðið til að vinna Barelona í Barcelona í meira en fimm ár eða síðan í febrúar 2019.

Seinni leikurinn fer fram á heimavelli Chelsea um næstu helgi.

Skotinn Erin Cuthbert skoraði sigurmarkið en það kom eftir stoðsendingu frá hinni þýsku Sjoeke Nüsken.

Markið kom á 40. mínútu.

Stephanie Frappart dæmdi víti á Chelsea á 52. mínútu fyrir hendi en hætti við eftir að hafa farið í skjáinn.

Barcelona er ríkjandi Evrópumeistari og hefur unnið Meistaradeildina tvisvar á síðustu þremur árum.

Chelsea er á sínu síðasta ári undir stjórn Emmu Hayes og Meistaradeildin er eini titilinn sem hún hefur ekki unnið með liðinu.

Það eru liðin sautján ár frá eina sigri ensk liðs í Meistaradeild kvenna en Arsenal vann Evrópukeppni meistaraliði árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×